Search

Við skör stigansVið teljum himnaríki rétt innan seilingar. Það er okkar eðli en þetta er aðeins fyrsta hæðin. Við vorum að stíga inn í anddyrið á blautum skóm, stöndum við skör stigans og horfum upp gullin þrep. Týnd í sjálfinu snúumst við í hringi og horfum á sólina snúast um okkur. Okkur finnst við útvalin. En þetta er aðeins fyrsta hæðin og leiðin framundan er afar löng.

Manneskjan elskar að byggja. Hún byggir fagra hluti og ljóta. Hún breytir farvegi ánna. Hún lengir daginn með gerviljósum. Hún sléttir úr ójöfnum með malbiki. Hún setur saman flóknar klukkur úr milljón litlum málmhlutum og lætur þær slá takt lífsins. Manneskjan telur sig vita hvað sé henni fyrir bestu. Hugurinn er ávallt á fleygiferð. Þetta stóra taktfasta taugahnoð hvíslar: ef þú nemur staðar fer allt út af sporinu.

Þegar ég var yngri var lífið flókið og óreiðukennt. Ég fann huggun í reglusemi. Ég raðaði hlutum og byggði turna úr ferköntuðum kubbum. Þessi tilhneiging dafnaði, blés út, stökkbreyttist og varð að skrímsli. Ég stjórnaði hverri vökustund harðri hendi. Lófarnir voru krepptir, hnúarnir hvítir. Ég gnísti tönnum svo brakaði í jöxlunum. Ég var svefnvana og dag einn sofnaði ég undir stýri. Ég man hlýja morguninn, ári eftir slysið, þegar ég horfði á fuglana baða sig í tjörninni, lófarnir opnir og fullir af brauðmylsnu. Heimurinn var óreiðukenndur og fagur.

Þegar ég kom aftur voru örlög mín í höndum annarra. Ég átti ekkert, ekki frelsi, ekki eigið líf. Ég var vita gagnslaus og gæti aldrei átt mig sjálf en það brakaði í brjóstinu við slíkar hugsanir. Ég reyndi mitt besta til þess að sætta mig við aðstæður mínar en ég vaknaði alla morgna í djúpri sorg. Ég trúði því að þarna úti væri Guð og bað til hans. Smám saman varð ég dofin. Á mínum síðasta degi stóð ég fyrir utan líkama minn og beið lausnar.

Og það var skiptið sem ég öðlaðist alla þá hluti og veraldlegu velgengni sem nokkurn mann gæti dreymt um. Sá tími er í móðu og ég dó með svarthol í hjartanu.

Síðla eitt kvöld leit ég með tárin í augunum upp í þennan ógnarstóra himinn, fullan af gátum fyrir þá sem vilja spreyta sig. Ég spurði til hvers þetta væri allt saman. Stjörnuhrap strikaði hvolfið og mér fannst það vera svar.

Ég man sumardag þegar ég hljóp með vini mínum milli fagurra blóma á nýjum skóm. Þegar ég lét mig detta í mjúkt grasið og hélt að hjartað myndi springa úr gleði.

Kvöld eitt stóð ég á ströndinni við litla þorpið sem ég hafði búið í alla ævi og horfði út á hafið. Ég andaði að mér svalri sjávargolunni og nuddaði þreyttar axlirnar og eitt andartak skildi ég hversu einfalt þetta var.

Ég kom aftur en var ekki eins ringluð. Ég fann innri takt og treysti. Vaknaði, veiddi mér til matar, drakk úr ánni, hvíldist í greni yfir köldustu mánuðina. Ég fylgdi árstíðunum og sólarganginum. Fann ennþá fyrir óttanum á öxlinni en var skýrari í hugsun og gat betur borið hann.

Síðar flutti ég mig milli heimshvela á ári hverju. Ég fann fyrir loftinu undir vængjunum og varði lífinu í hlýju sumri.

Með hverjum búning léttist byrðin. Ég sat á botninum. Ljósið brotnaði á yfirborðinu og fagrir geislar lýstu upp agnirnar í vatninu sem flutu hjá. Ég teygði út angana og sópaði sem flestum upp í mig. Árstíðirnar liðu. Í birtunni andaði ég inn og dafnaði, í myrkrinu andaði ég út og hvíldist. Dag einn flaut ég upp á yfirborðið. Tókst á loft og flaug í átt að ljósinu, sá sólina í himninum, þennan gamla vin. Ég varði deginum í ástardansi og að kvöldi féll ég til jarðar. Rigningin umlukti mig og ég hvarf ofan í jarðveginn.

Ég spíraði, skaut út rótum og vissi að ég þurfti að teygja mig að birtunni. Ég teygði mig og teygði og tíminn leið. Stofninn varð gildur og sterkur. Ég bætti á mig greinum og ég elskaði laufblöðin. Á hverju hausti syrgði ég þegar ég sá þau falla. Ég syrgði allan veturinn þar til þau birtust á ný með vorljósinu. Með tímanum varð léttara að kveðja, ég var farin að skilja að þau kæmu alltaf aftur. Ég varð gamalt og viturt tré, stóð hátt og tignarlegt í skóginum og aparnir sveifluðu sér í greinum mínum.

Ég varð lítið strá sem sveigðist í vindinum. Þetta var einfalt líf en mér leiddist aldrei því að fuglasöngurinn í enginu var svo fagur.

Líkami minn mjúki lagaði sig að undirlaginu, skreið eftir skógarbotninum, þakti haustgult laufið og braut það niður uns ég brotnaði niður líka. Vefur minn seytlaði niður í jarðveginn. Ég rann undan hraunhellu, flaut niður hæðir, fossaði niður kletta og hafnaði í sjónum. Ég velktist um, sleikti ströndina öldu eftir öldu, flaut út á miðin og sökk niður í djúpið, inn í myrkrið og dvaldi þar í langan tíma. Ég lærði að tíminn er tálsýn, hreyfing fljótandi agna í rými, gufaði upp og steig upp til himins. Og þar hitti ég þig. Við sameinuðumst öðrum í skýjunum. Pláneturnar svifu hjá okkur í fullkomnum dansi ógnarstórra krafta. Sólin sundraði okkur og við þéttumst og brotnuðum í sundur á ný. Flettum af okkur hverju laginu á fætur öðru, hljóðlaus meðal blikandi stjarna.

Ég veit ekki hvað heldur þessum heimi saman. Kannski er það vaninn eða hungrið. Orka sem skreytir sig með stjörnuryki. Eða Guð. Eða ástin. Kannski er það nafnlaust og ofar skilningi veru sem var að stíga inn í anddyri á blautum skóm. Hún stendur við skör stigans og horfir upp gullin þrep, á hugmynd um himnaríki innan seilingar. Innst inni veit hún samt að leiðin framundan er afar löng.NÍNA ÓLAFSDÓTTIR