Search

Leonora Carrington, súrrealistinn og rithöfundurinnLEONORA CARRINGTON er fædd þann 6. apríl árið 1917, sumsé á þessum degi fyrir 107 árum. Ég kynntist verkum hennar þegar ég bjó í Mexíkóborg en árið 2013 var stór yfirlitssýning í Museo de Arte Moderno með verkum 43 myndlistarkvenna sem unnið höfðu á sviði súrrealisma. Skemmst er frá að segja að sýningin var stórfengleg –og þar sá ég í fyrsta skipti verk eftir Leonoru Carrington, Fridu Kahlo, Remedios Varo og fleiri merkilegar konur, með berum augum. Þessi sýning hafði þannig áhrif á mig að því er ekki hægt að lýsa með orðum. En í tilefni þess að dagurinn í dag er fæðingardagur hinnar miklu Leonoru Carrington, langar mig að draga fram helstu atriði úr lífshlaupi hennar, ef ske kynni að einhverjur þekktu ekki til hennar.

  • Leonora var fædd og uppalin í Englandi og kom úr efnaðri fjölskyldu. Hún varð fljótlega uppreisnargjörn eins og títt er með listamenn, sá myndir og fígúrur alls staðar og listrænn áhugi hennar kom snemma í ljós. Hún fór til náms í Flórens, stundaði skólann illa en sótti listasöfnin og varð fljótlega staðráðin í að gerast málari.

  • Árið 1936 heldur Leonora til náms í London. Þar fer hún á sýningu sem hefur mikil áhrif á hana, sýning með verkum þýska súrrealistans Max Ernst og heillast um leið af verkum hans og heimi súrrealistanna.

  • Leonora Carrington og Max Ernst hittast í samkvæmi árið 1937 og með þeim takast, að því er virðist, óstjórnlegar ástir, stuttu síðar halda þau nefnilega saman til Parísar þar sem Max skilur við eiginkonu sína. Leonora og Max unnu saman og lifðu og hrærðust í súrrealismanum en á þessum árum kynntist hún öllum helstu meisturunum sem unnu innan stefnunnar.

Leonora Carrington og Max Ernst, 1937. Ljósmynd: Lee Miller.


  • Árið 1938 kemur fyrsta bók Leonoru út, La Maison de la Peur (Hús óttans). Bókin var aðeins 16 síður og kom fyrst út í Frakklandi, með myndskreytingum eftir Max Ernst. Hún fjallar m.a. um unga konu í kastala og talandi hesta í mannslíki. Leonora og Max sýndu einnig bæði á alþjóðlegum sýningum súrrealista í París og Amsterdam þetta ár.

Hægt er að skoða bókina hér: https://collections.library.yale.edu/catalog/2057072

  • Eins og venjulega leyfist manneskjunni sjaldnast að dvelja um of í draumaheimi og árið 1939 er Max Ernst handtekinn af Gestapo. Nasistum voru verk hans lítt að skapi og sögðu þau úrkynjuð. Max nær reyndar síðar að flýja til Bandaríkjanna með hjálp listaverkasafnarans Peggy Guggenheim (sem hann giftist síðar) en Leonora sat sorgmædd eftir í París og leiðir þeirra liggja ekki saman eftir þetta.

  • Eftir hvarf Max Ernst úr lífi Leonoru, heldur hún til Spánar, er þó eðlilega full kvíða og ótta og að lokum ákveður faðir hennar að hún skuli lögð inn á hæli fyrir geðsjúka. Þegar hún átti að fá að losna fær hún hinsvegar að vita að foreldrar hennar hafi ákveðið að senda hana næst á heilsuhæli í Suður-Afríku. Á leiðinni þangað stoppar Leonora í Portúgal, þar sem hún fer beinustu leið í mexíkóska sendiráðið og hittir Renato Leduc, skáld og sendiherra Mexíkó. Þau leggja á ráðin um að hún flýji til Mexíkó og ákveða að besta leiðin til þess að hún fái landvistarleyfi, sé að hún giftist honum, sem hún gerir. Þau dvelja fyrst í eitt ár í New York en halda síðan saman til Mexíkó, þar tekur Leonora ástfóstri við landið og bjó þar að mestu síðan. Þau Leduc voru hinsvegar ekki gift lengi og skildu árið 1943.

  • Þegar Leonora kemur til Mexíkó fer hún á fullt í að vinna að málverkum, skúlptúrum og veggspjöldum, auk þess sem hún skrifar sögur og myndskreytir. Hún hafði áhuga á hinu dulda og yfirskilvitlega, goðsögum, dýrum og fígúrum og vildi meina að hennar annað sjálf birtist í líki hvíts hests. Vísunin í hestinn má sjá í mörgum verka hennar; málverkum, sögum og í einni hryllingsmynd sem hún tók þátt í sem listrænn aðstoðarmaður, La mansión de la locura í leikstjórn Juan López Moctezuma, sem er gróflega byggð á sögu eftir Edgar Allan Poe. Mörg verka Leonoru fjalla einnig um konuna í heimi sköpunar, eins nýtti hún sér reynsluna eftir vistina á hælinu til listsköpunar, m.a. við gerð bókarinnar Down Below sem kom út árið 1944.

Sjálfsmynd, 1938.


  • Árið 1944 kynnist Leonora ungverska ljósmyndaranum Emerico Weisz og giftist í annað sinn. Þau eignuðust tvo syni og lifðu saman þar til hann féll frá. Leonora lifði og starfaði upp frá því að mestu leyti í Mexíkó og lést þar 94 ára að aldri árið 2011.

Leonora ásamt seinni eiginmanni sínum, Emerico Weisz og sonum þeirra.

  • Leonora Carrington gaf samtals út 10 bækur, flestar þeirra myndskreytti hún sjálf.

  • Árið 2018 var Museo Leonora Carrington opnað í San Luis Potosí í Mexíkó en annar sonur hennar gaf mikinn fjölda verka til safnsins: Sjá: https://www.leonoracarringtonmuseo.org/


Lepidoptera, 1968.


Án titils, 1943.


Leonora Carrington á vinnustofu sinni með kött í fanginu(Gato de la noche) Næturköttur, 2010

–BIRTA ÓSMANN ÞÓRHALLSDÓTTIR
Bækur um ævi Leonoru Carrington:

-Leonora. Höf. Elena Poniatowska. Kom út árið 2011. -The Surreal Life of Leonora Carrington, höf. Joanna Moorhead. Kom út árið 2017.