Heimsfaraldur
Það er kominn heimsfaraldur.
Ég vakna
geri kaffi, gef dóttur minni morgunmat.
Horfi út um gluggann, drekk kaffi.
Það er ekkert fólk úti
nema kannski stakir skokkarar.
Þeir hlaupa eins og sjálfkeyrandi bílar,
það verða engir árekstrar.
Farfuglarnir eru nýkomnir.
Þeir syngja í takt við skokkarana,
blaka vængjunum við hvert fótatak.
Við hvern latexfót er fiðrað vængjatak.
Vorlaukarnir eru að spretta upp í garðinum,
brauðmylsnurnar sem ég setti út í vetur eru
blautar í tættu grasinu við skriðsóleyjarbalann.
Kattaskítur kemur upp um launsátur vetrarins.
Plastpoki fýkur yfir húsið mitt.
Það er heimsfaraldur.

-Guðrún Heiður, mars 2020