Search

Ein á ferð og oftast ríðandiEkki veit ég, hvort þetta er náttúran sjálf að verki, eðlileg lostasemd ungrar konu sem er ástfangin og sá heittelskaði í öðrum landshluta -og á sjó í þokkabót. Að líkindum hafa margir upplifað það sem ég nú geng í gegnum, vítiskvalir sem eru þó unaðslegar í senn. Ég kippist til innra með mér ef ég hugsa um hann og verð að hafa mig alla við að gleyma mér við eitthvað annað, dreifa huganum. Flokkun gagna á skjalasafninu reyndust mér ágætlega, s.s. flokkun á kvittunum frá Verzlun Sigurðar Pálmasonar eða Kaupfélagi Vestur Húnvetninga, kvittunum um greiddan bifreiðaskatt, kvittanir frá Trabant-umboðinu og bleðlar um samþykki fyrir eyðingu svartbaks reyndust mér eins og tryggir vinir á ögurstund.


En fjandakornið! Síðan þurftu endilega að vera þarna fjárdagbækur og nákvæmlega útlistað hvaða helvítis brundhrútur fékk að fara á hvaða fjandans rollu! Að Kvistur hafi fengið að gamna sér á Hélu, grábotnóttri. Hvað hann sé með gott sæði! Nei, fjandinn! En aftur dimmdi fyrir augum og dró fyrir minni -og öll einbeiting við skjalaskráningu fokin út í veður og vind og ég farin að telja niður tímana þar til ég fæ að hitta minn heittelskaða aftur.


Þetta er mér ekkert nema undrunarefni. Svona lagað, getur þetta talist eðlilegt hjá manneskju kominni yfir þrítugt? Aldur minn hefur að vísu alla tíð verið eins og afstæður, valdið mér ævinlega hugarangri, það er nefnilega djöfulli erfitt að vera ævagömul sál í ungum líkama, með huga sem er einhverskonar furðuleg samsuða af gömlum konum og ævisagnaþráhyggju og breimandi ketti. Þrúgast ég þó áfram og geri tilraun til að lifa vikuna af, sökkva mér í bækur og skjöl (nema helst ekki um brundhrúta eða graðhesta) þar til útlegðinni linnir og ég get hitt graðnaglann á höfuðið. Þá sættist ég við hólana og ævarandi hjartsláttur minn kyrrist, hygg ég að lagbrigði lautar og slípun tveggja líkama geri þar útslagið.


-Birta