Search

Blettatígur

Til Guðrúnar HeiðarBlettatígur: rándýr af kattaætt; grannvaxinn og liðugur, gulur með rauðbrúnum blettum og líkist hlébarða; veiðir einkum antilópur og gasellur; lifir á gresjum og staktrjáasléttum Afríku og Asíu; stundum taminn til veiða; nær allt að 120 km hraða á klst. og er fótfráasta dýr á landi; um 75 cm yfir herðakamb; nýtur verndar Washingtonsáttmálans.
Fyrir sérstaka tilhlutun forsjónarinnar keypti ég mér blettatígurskápu fyrr í vetur í snjóveðrinu mikla sem geisaði að norðaustan. Þá var mikið frost. Ég hafði nefnilega nýverið fengið borgun fyrir sölu á þremur fjórðu pörtum úr fyrirtæki sem framleiddi lyf við gyllinæð og var vel stæð í fyrsta skipti í langan tíma. Kápan var eins og sniðin á mig en það einkennilega var að um leið og ég sveipaði henni um mig, fór ég að hegða mér eins og versta villidýr, hvæsti eins og villtur köttur, breimaði og lét öllum illum látum. Ekki leið á löngu þar til faðir minn kom að máli við mig og ráðlagði mér að losa mig við kápuna, hann hafði einhvern tímann reynt svipað, karlinn, og þótti bregða til batnaðar þegar hann hafði losað sig við mokkakápu af gömlum sauð. En kvelddimman lá yfir um veturinn með raka og kuldablæ og ég átti erfitt með að farga kápunni, eins og ég yrði þá til dauða dæmd, eins og barn sem sem er svipt reyfum í vöggu sinni. Ég sá ekki aðra leið út úr hremmingum mínum en að flytjast búi eitthvert langt frá heimsins glepjandi glaumi, í ró og næði á afvikinn stað, á meðan ég væri að komast yfir verstu fráhvarfseinkennin. Hygginn maður hagar sér eftir kringumstæðunum, eins og vatnið lagar sig eftir ílátinu sem það er í. Og það gerði ég.

Ég var í sextíu daga og sextíu nætur að afeitrast en eftir mikið hugarvíli og erfiði spratt ég upp á ný eins og fugl úr laut. Síðan hef ég varast kápur úr skinni, hverskyns loðfeldi, skinnvettlinga og annað slíkt er kann að hafa slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu.-BIRTA ÓSMANN ÞÓRHALLSDÓTTIR


Málverk: Guðrún Heiður Ísaksdóttir