Search

Þúfutittlingur í þakskeggi lærir mannamál


Að gerði flykkist forvitið hrossastóð þar sem tvær konur koma klífandi upp hlíð á Vatnsnesfjalli, klyfjaðar vistum fyrir þriggja daga baðstofusetu og ritstörf við kertaljós og kamínuvarma. Síðsumarkvöldið ber með sér fyrstu breiðu næturmyrkurs og ást verður að umfjöllunarefni í dauða og lífi. Rafmagnið í fjarskiptatækjum fjarar út og innan í umfangsmiklu hljóðleysinu raðast saman ófyrirsjánleg heild úr orðum í gegnum stafarugl og samtal við þúfutittlinga í þakskegginu. Tveir hrafnar kroppa í torfþakið og blóð, sviti og tár skolast niður með bæjarlæknum að morgni hverjum. Skriðuskáldin skiptast á að kynda upp og lesa upp fyrir hvort annað úr ljóðaljóðum og annálum. Á meðan heimsfaraldur geysar og önnur smitbylgjan þrengir að daglegu amstri í þéttbýlli byggðum, fer fram fyrsta ritvinnustofudvöl (af mörgum) í traustu sálufélagi Skriðuskálda, í baðstofu torfbæjar innan í álfabyggð á Vatnsnesi. Fyrir hundrað árum var hér búið og kvöldstundum varið við eitthvað annað en hrafnaklór um skáldlegan sköpunarkraft frygðar og fríðindi hugarásta. stunur, öskur, væl tréð syngur ég er innan í ást í þér innan í ást með þér (Haft eftir þúfutittlingi í þakskegginu að Ánastaðaseli, 11. ágúst 2020) -Freyja Eilíf

___________________________________________________________________________


Freyja Eilíf vinnur nú að þýðingum á ljóðum rússnesku skáldkonunnar Zínaídu Gippíusar fyrir útgáfu sem er væntanleg hjá Skriðu bókaútgáfu árið 2021. Ljóðasafnið ber yfirskriftina Ást og eilífð mætast í dauða sem er lýsandi titill fyrir höfundaverk Zínaídu sem skapaði sér sess á silfuröld rússneskra bókmennta fyrir táknsæi sitt og naumhyggju í kveðskap.


Ritvinnustofudvöl Skriðuskáldanna Birtu Þórhallsdóttur og Freyju Eilífar fór fram dagana 5. - 12. ágúst 2020, í Holti - Menningarsetri á Hvammstanga og torfbænum Ánastaðaseli á Vatnsnesi.